Rockville

 
 

Höfundur: Þorsteinn Jónsson

Útsetning, blöndun og upptökustjórn tónlistar: Einar Melax og Einar Andrésson

Lengd: 78 mín

Framleiðandi: Kvikmynd

Frumsýning: 2004

Efnið


Ólafur Ólafsson fyrrverandi Landlæknir var vanur að sjá rónana í Reykjavík á Arnarhólstúninu út um gluggann á skrifstonni sinni. Dag einn voru þeir horfnir eins og jörðin hefði gleypt þá. Það kom í ljós að einhver Guðmundur hafði sótt þá og farið með þá í Hafnarfjörð til að vinna þá upp þar.
Guðmundur var sjálfur alkohólisti og byrjaði á því að opna heimili sitt fyrir fyrrum drykkjufélögum af götunni. Það var upphafið að Byrginu. Eftir að flytja hús úr húsi í nokkur ár var honum leyft að koma sér fyrir með starfsemina í yfirgefinni Radarstöð Bandaríska hersins í Rockville á Miðnesheiði. Eftir þrjú ár og mikla uppbyggingu var hann rekinn þaðan.
Heimildamyndin Rockville er tekin á þeim tíma, þegar Byrgið var í Rockville og segir sögu Guðmundar og skjólstæðinga hans. Sagan er ekki laus við bjartsýni og húmor, þó alvaran sé skammt undan. Það kemur í ljós að meðal skjólstæðinga Byrgisins, sem aðrar stofnanir hafa gefist upp á og sumir hverjir eiga nánast heima á Hrauninu, eru góðhjartaðir einstæðingar, kannski fullmeirir fyrir hörku nútímans. Þeir fóru út af brautinni og eyðilögðu framtíð sína. En þeir eru verðmætir, því þeir geta aðvarað meðbræður sína. Fyrir sum mistök borgar maður með lífinu.

Úr gagnrýni


Umsögn á Rás 2:

Rockville er ein þeirra mynda sem sýna jaðarstarfsemi sem venjulegur borgari kynnist sjaldan eða aldrei. Við höfum nýlega séð mynd Ólafs Sveinssonar, Hlemm, um útigangsmenn og fólk sem hefur viðstöðu á Hlemmi, og við höfum líka séð Lalla Johns eftir Þorfinn Guðnason. Hlemmur og Lalli sýna vandamál, niðurlægingu. En Rockville er allt annars eðlis. Rockville er ekki um vandamál heldur sigra. Þar er búið að koma fólki á réttan kjöl amk um stundarsakir, finna lausnir með guðlegri handleiðslu í skilningi margra.

Rockville segir frá starfsemi meðferðarheimilisins Byrgisins meðan það var í gamalli radarstöð sem nefnist Rockville á Reykjanesi. Í bandaríska hernum er Íslandi iðulega kallað The Rock, svo að Rockville er eiginlega Íslandsbær, hið eiginlega Ísland, eða Ísland í smásjá. Og myndin Rockville er sannarlega stækkunargler ef ekki smásjá. Þarna sjáum við Guðmund forstöðumann og liðsmenn hans, knúna áfram af guðlegum tilgangi og með guðlegri reisn, í því verki að byggja upp, rétta fólk við, að minnsta kosti leyfa því að heyra og finna það sem máli skiptir. Guðmundur er sjálfur alkóhólisti og byrjaði á því að opna heimili sitt fyrir fyrrum drykkjufélögum af götunni. Fékk síðan húsnæði fyrir starfsemina í Hafnarfirði og í Hlíðardalsskóla og í Byrginu, og nú loks nýlega austur í Grímsnesi. Í Byrginu eru er dópistar, alkóhólistar og afbrotamenn. Útigangsmenn. En um leið er þetta mynd um okkur öll, öll erum við breysk, þjáningin getur sótt alla heim. Og þessi píslarsaga og endurlausn er mun meira sannfærandi en nýlega ræma, Píslarsaga Krists í leikstjórn Mels Gibson, svo dæmi sé tekið, mun skeleggari boðberi málstaðarins, boðskapsins.

Menn eru oft nálægt því að glatast, nær dauða en lífi. Guðmundur kveikir á andanum og Ólafur Ólafsson fyrrum landlæknir og staðarlæknir Byrgisins reynir að blása fólki lífsanda í brjóst með sínum hætti sem er býsna athyglisverður. En allt er þetta á veikum efnislegum og fjárhagslegum grunni, þótt nokkur stuðningur hafi komið frá ríki og sveitarfélögum. En hvernig lítur dæmið út þegar allt kemur til alls, hvort er dýrara, að styðja Byrgið eða takast á við vandamálin sem stafa af bræðrum og systrum á glötunarvegi? Hvort er affarasælla að geta boðið upp á þessa meðferð eða þurfa að greiða fyrir vistun á heilbrigðisstofnunum og fangelsum, með alla .þá keðjuverkun sem þar fer í gang og ber með sér enn meira heilsu- og eigantjón?

Rockville sýnir menn að starfi, í lofgjörð á samkomum, við uppbyggingu staðarins og síðan brottför þaðan. Við sjáum hópinn á vegferð sinni, vitum ekki hvað gerist næst, lífið er vegferð pílagríms. Myndin er samt ekki hvað síst um Guðmund forstöðumenn, enda kominn tími til að gera heimildamynd um hann. Guðmundur er kraftaverkamaður, margbrotinn og heillandi persóna.

Sumum finnst eins og svona myndir séu að kíkja inn um gægjugat. Rockville er ekki að gera það. Allir koma vel út úr henni. Hlutunum er gefinn góður tími. Ólíkir persónuleikar fá notið sín en fólkið er í jafnvægi, yfirvegað. Þorsteinn var 4 ár að undirbúa og taka myndina, hann kynntist fólkinu vel og það treystir honum. Það er ákaflega dýrmætt veganesti við heimildamyndagerð.

Þetta er vönduð, sannferðug, heiðarleg og mikilvæg heimildamynd. Þetta er mynd með trú, von og kærleika, vel við hæfi á páskum

Rockville ***

(Ólafur H Torfason)


Umsögn í Morgunblaðinu

Að geta höfði sínu hallað

Íslensk heimildamynd. Handrit, taka, stjórn, klipping: Þorsteinn Jónsson. Tónlist: Einar Melax, Einar Andrésson. Viðmælendur Guðmundur Jónsson, skjólstæðingar hans í Líknarfélaginu Byrginu; Ólafur Ólafsson, fyrrum landlæknir ofl. 68 mínútur. Kvikmynd ehf. Styrkt af Kvikmyndamiðstöð Íslands ofl. Ísland 2004

UNGUR harðjaxl sem bersýnilega hefur marga fjöruna sopið, segir við myndavélaraugað hans Þorsteins Jónssonar: “Ef þú tekur utan um forhertan mann, gráan fyrir járnum, klappar honum, ert góður við hann, sýnir honum kærleik, að þér þyki virkilega vænt um hann - brotnar allt í kringum hann. Það er ekkert sem stenst kærleikann, bróðir.”

Þetta er kjarni málsins í meðferðinni í Byrginu, skjólinu hans Guðmundar Jónssonar, fyrrum róna nú kraftaverkamanns, sem búinn er að koma sér fyrir í Rockville, afdankaðri ratsjárstöð NATO á Miðnesheiði. Niðurníddar byggingarnar voru fjórði aðsetursstaður Byrgisins á þrautagömgu þessa líknarfélags hinna smæstu í velferðarþjóðfélaginu sem virðist stjórnast æ meira af gróðahyggju Gordons Gekko og hans eftirlætis slagorði: “Græðgi er góð.” Undir slíkum kringumstæðum er lítið pláss fyrir vangaveltur um velferð drykkjusjúklinga og dópista sem hvergi eiga höfði sínu að halla, eru búnir að brjóta allar brýr að baki sér.

Þá kemur til kasta Gumma í Byrginu og fleiri hans líka sem flestir kynntust áfengisbölinu og dópdjöflinum af eigin raun og hafa, fyrir Guðs og góðra manna hjálp, bjargast og komist aftur í tölu lifanda.

Í hálft þriðja ár, eða lungan af tilvist Byrgisins í Grjótaþorpinu á heiðinni, fylgdist Þorsteinn með Guðmundi og ógæfumönnunum sem hann skýldi undir sínum verndarvæng eftir að flestir höfðu lokað á þá. Ræðir við nokkra úr hópnum og sögur þeirra flestar eru á sama veg. Fársjúkir náðu þeir botninum, örmagnaðir á sál og líkama, en hafa nú eygt nýja von og ljós í svartnættinu sem var þeirra ömurlegi hversdagur.

Viðmælendurnir eru þakklátt fólk sem segir okkur misjafnar sögur þó þær beri að sama brunni. Allar átakanlegar, sumir rekja þær á það hreinskilinn og sláandi hátt að myndin lætur engan ósnortinn. Margir benda á óefni réttarkerfisins, hvernig vítahringur refsivistarinnar hefur markað mþeim bás meðal dreggja samfélagsins. Austur á Litla Hrauni hafa flestir fengið fyrstu, alvarlegu kynnin af glæpaheiminum sem oftast býður einn með opið fangið þegar aftur er komið út í “frelsið”. Alvaran blasir hvarvetna við bíógestinum, þó er engiu að síður oftar en ekki létt yfir mannskapnum, hann er greinilega bá bataleið. Þorsteinn hefur áunnið sér traust viðmælendanna, lætur lítið fara fyrir á sér, skrásetur úr fjarlægð baráttu Guðmundar við kerfið og fordómana, að viðhalda köllun sinni og harðri glímu skjólstæðinganna við lífið, markað miskunnarlausum slagnum við fíknina. Mergur málsins er trúin: Kærleikurinn og fyrirgefningin, stuðningurinn sem það finnur innan veggja Byrgisins.

Að leiðarlokum er Guðmundur og hjörðin hans, enn og aftur stödd við læstar dyr. Nú er það hliðið að Rockville sem skellur á eftir þeimm, en byggingarnar á að jafna við jörðu. Það eina sem bíður hinna umkomulausustu allra umkomulausra er rútubíll út í óvissuna. Vonandi hefur beinskeytt myndin hans Þorsteins ýtt það við samvisku þjóðarinnar að henni leiki hugur á að vita hvar hinn brothætti farmur er staddur í allsnægtaþjóðfélaginu. Þ.e.a.s. þeir sem lifað hafa af flutnngana.

Sæbjörn Valdimarsson
Rockville ***