Punktur punktur komma strik

 
 
 

Úr gagnrýni Morgunblaðsins

(Sæbjörn Valdimarsson):

"En hvernig tekst svo til með að flytja efnið af pappírnum á filmuna? Margt þarf að sníða til, endursemja, stytta og einfalda. Það má segja að fyrri hlutinn sé sannari sögunni, hér heldur sér ærslafullur stíll Punktsins og sögupersónurnar birtast holdi klæddar hver af annarri einkar sannferðugar. 

Þegar víkur að táningnum Andra, verður [myndin] þunglamalegri, efnið samþjappaðra og bitnar það á hrynjanda myndarinnar. Grunntónninn er þó alltaf samkvæmur sjálfum sér, það er mest um vert.

Í það heila tekið er ekki að sjá að [myndin] sé byrjendaverk leikstjórans, Þorsteins Jónssonar, í gerð langra leikinna kvikmynda. Hann nær yfirleitt upp réttu stemningunni, mér eru einkar minnistæðar rútuferðirnar báðar, draumsýnir Andra og barátta smásveinsins við brunaboðann - meðan eldri árgangarnir eru farnir að velta fyrir sér leyndardómum kynlífsíns.

Framvindan er oftast glögg, það eru aðeins kaflar í síðari hálfleik, eins og fyrr segir, þar sem boltinn gengur stirðlega á stöku stað.

[Myndin] nær einkar vel tíðarandanum, hér þykist maður geta trútt um talað, rétt örlítið eldri en söguhetjan. Hér kemur til vandvirkni aðstandenda myndarinnar, einkum smekkvísi og nákvæmt handbragð Björns Björnssonar og félaga. Umhverfi, leikmyndir og búningar eru óaðfinnanlegir, það liggur við að maður finni (gömlu góðu) apaskinnslyktina af skvísunum.

[Valgeir Guðjónsson] notar haglega gamalkunna tónlist t.d. hamonikkuspilið undir rútuferðinni í sveitina. Frumsamdar tónsmíðar hans eru þægilegar og í anda efnisins."

"Og þá er komið að Sigurðar þætti Sverris. Allt frá upphafsskoti til enda er kvikmyndatakan sér kafli, ein gullfalleg melódía um menn og skepnur, loft og láð. Listahandbragð hans gerir Punktinn að enn betri mynd, sem ég fæ ekki betur séð en að eigi ágætt erindi til sterkasta aflsins í okkar illa aðhlúnu kvikmyndagerð - almennings í landinu."  

 

 

Úr gagnrýni í Vísi


(Sólveig K. Jónsdóttir, Vísir):

"Andri Haraldsson lifnaði við í hugum íslenskra lesenda þegar þeir kynntust honum á síðum bókarinnar "Punktur punktur komma strik" eftir Pétur Gunnarsson. Nú hefur hann öðlast annað líf í samnefndri kvikmynd Þorsteins Jónssonar. Sagan kom fyrst út á prenti fyrir rúmlega fjórum árum og hefur síðan verið endurútgefin oftar en árlega. Það er því hreint ekki óvænlegt að byggja kvikmyndahandrit á efni bókarinnar.

Andri er ekki kominn til skjalanna þegar kvikmyndin hefst. Foreldrar hans tilvonandi , Ásta og Haraldur, eru enn laus og liðug en í óða önn að bindast hvort öðru. Haraldur vill að það gifti sig en Ásta segir: "Þú veist hvernig það fer". Og auðvitað fer það eins og allir vita. Haraldur hættir á sjónum, byrjar  að vinna hjá Kananum á Vellinum. Andri fæðist og líf hjónakornanna  verður ögn á annan veg en hjá hetjum rómantískra Hollywoodmynda. Íslenskt efnahagslíf er allt á uppleið með dollurum og verðbólgu, afi Andri fylgist tæplega með og skilur síst hvers vegna krónan á bráðum að breytast í sextíu aura. Kaninn er alls staðar nærri. Hann einn býður þann gjaldmiðil sem nota má til að afla húsnæðis og allar skemmtanir eru frá honum komnar, bæði bíómyndir og töfrabragðasýningar. Fjölskylda Andra fylgist með sjónhverfingum amerísks töframanns á Vellinum en ánægjan er ekki einráð. Afi, gamall og svifaseinn, lætur til leiðast að aðstoða töframanninn sem týnir  af honum allt fémætt og leysir að lokum niður um hann.

Andri fylgist ekki sjálfur með nærveru Kanans. Hann lifir í heimi bernskunnar þar sem ýmislegt kátlegt gerist. Snúningur jarðar um eigin möndul og sólina þarfnast rannsóknar, áhrif brunaboða eru könnuð, en kynfæri og kynlíf eru þó aðal athugunarefnið. Í skólanum reynir kennarinn að pota staðreyndum landafræðinnar inní hausinn á Andra og bekkjarfélögum hans og í bekknum eru eins og vera ber bæði tossi og reindur uppáhaldsnemandi kennarans.

Að sumarlagi er Andri sendur í sveitina í kynnisdvöl og til að rölta a eftir kúm bónda. Búskapurinn í  "Puntur punktur komma strik" er mjög á sama veg og í öðrum nýjum íslenskum kvikmyndum. Bóndinn er framtakslaus klaufi og kofarnir virðast að því komnir að hrynja í hausinn á bónda, búaliði og búpeningi. Ekkert girðingarræksni er svo barrlegt að það megni að halda ser í lóðréttri stöðu og stía sundur yxna kvígukálfi og graðneyti. Síðast en ekki síst drekkur bóndi duglega af vasafleyg þingmannsins sem vísiterar kjördæmið til að kanna trygglyndi atkvæða sinna og saman syngja þeir þjóðlega söngva eins og menn gera auðvitað í sveitinni.

Andri eldist og að lokum er hann í síðasta bekk gagnfræðaskóla. Andrúmsloftið milli stráka og stelpna er harla rafmagnað og Andri og Magga bekkjarsystir hans verða ástfangi. Andri og Magga eiga sér ssama óraunsæja sæludrauminn og Ásta og Haraldur í upphafi en á meðan Andri heimsækir Möggu í fyrsta sinn er Ásta að vísa Haraldi á dyr. Herinn er orðinn fastur í sessi og meðan herstöðvarandstæðingar skálma framhjá með spjöld sín trúir Magga kærastanum frir því að hún viti ekkert hallærislegra en svona göngur. En það er ekki  í öllum tilfellum að vita hvernig fer, og í lok myndar situr Andri einn eftir með fyrstu reynsluna af ástinni og sorginni - og æskuna að baki.

Andri er eins og Óli prik, ekki sérstaklega skýrt dregin persóna. Sálarlíf hans er ekki frásagnarefni í kvikmyndinni heldur þjóðfélagið sem hann fæðist inní. Kvikmyndin lýsir uppvexti barns rétt eftir 1950 og líklega finna marigr af kynslóð Andra sitthvað svipað í æsku sinni og hans. Allir hagir Íslendingar breytast á árunum sem Andri vex úr grasi, stórfjölskyldan sundrast, amma fer á Grund og skortir ekkert og Haraldi dettur ekki í hug að umglingurinn Andri geti vanhagað um annað en peninga. Fólk dreymir dagdrauma sem aldrei rætast, drauma sem því hafa verið réttir upp í hendurnar.

En þó litið sé til baka í  "Punktur punktur komma strik" þá er það ekki með sætsúrri eftirsjá, heldur gagnrýni og skopi. frásgnarefnið er oft á tíðum fislét gaman en í annan stað alvarlegt og umhugsunarver. Fimmti áratugurinn og byrjun þess sjötta birtist ekki í gullnum bjarma. Þvert á móti virðist hann fremur óaðlaðandi. Þegar betur er að gáð eru neikvæðu þættir þjóðfélagsins sem dregnir eru fram í "Punktur punktur komma strik" enn á sínum stað og þess vegna höfar myndin einnig til okkar sem ekki upplifðum þetta tímabil.

Þorsteini Jónssyni og samstarfsmönnum hefur tekist einkar vel upp. Þeir fara fallega með sögu sem mörgum þykir trúlega vænt um og gæða hana nýju og sjalfstæðu lífi. Sigurður Sverrir Pálsson er einhver reyndasti kvikmyndatökumaður hérlendis og þarf ekki að fara í grafgötur um kunnáttu hans og leikni. Honum bregst ekki bogaslistin hvort sem sýna á ærsl krakka eða rómantík fyrstu ástar. Björn Björnsson og Fríður [Ólafsdóttir] laða fram löngu liðna tíma með leikmynd og búningum og tónlist Valgeirs Guðjónssonar á drjúgan þátt í réttri stemningu með skopstælingu á dæugrtónlist eftirstríðsáranna. Af leikurum myndarinnar verða Andrarnir tveir og Doddi leikfélagi Andra eftirminnilegastir en allflestir leikarar myndarinnar skila hlutverkum sínum með mestu prýði.

Þegar kvikmynd er byggð á efni bókar er samanburður fjarska freistandi þótt hann sé stundum til lítils gagns. Gera má ráð fyrir að flest allir sem sjá kvikmyndina "Punktur punktur komma strik" hafi jafnframt lesið samnefnda bók ef marka má viðtökurnar sem hún fékk. Þó að kvikmyndin sé ærið styttri en bókin og orðaleikir og stíll Péturs Gunnarssonar komist ekki nema að litlu leyti til skila þá verða áhrif þessara verka í held furðu lík og kvikmyndin á sannarlega skilið að hljóta vinsældir, ekki síður en bókin.


 

Úr gagnrýni Alþýðublaðsins

Bryndís Scram:

"Ég verð að viðurkenna, að mér fannst fyrri hlutinn  mun betri og nær anda bókarinnar. Í fyrsta lagi voru börnin undurgóð, rétt eins og þau hefðu aldrei þekkt annað. Ber þar auðvitað fyrst að nefna Pétur Björn Jónsson í hlutverki Andra og svo Hafstein Ingimundarson sem lék vininn Dodda. Ógleymanlegir báðir tveir. En það var ekki bara leikur barnanna, heldur öll leikmyndin, klæðnaðurin, hárgreiðslan og síðan en ekki síst frábær myndataka Sigurðar Sverris. Sviðið e mjög þröngt, aðallega ein bakgata í vesturbænum, en samt fáum við tilfinningu fyrir broginni allt um kring. Og enn á ný rifjat upp minningar úr manns eigin æsku, þar sem allt var einmitt svona."

"Þó nokkrir atvinnuleikarar koma við sögu í Punktinum. Langar mig þar fyrst að nefna Bjarna Steingrímsson í hlutverki bóndans. Mér fannst Bjarni hreint frábær. Göngulagið, tilburðirnir, talsmátinn og klaufskan, allt var þetta svo ekta, að það gat ekki verið nær sannleikanum. Einnig var Flosi ógleymanlegur sjoppuhaldari, alveg eins og þeir gerðust beztir. Sama hvernig maður hegðaði sér, það var aldrei hægt að þókanst þeim. Kristbjörg og Erlingur leika  hversdagslegt fólk á hversdagslegan hátt, mátulega vonsvikin og þreytuleg bæði tvö. Kennarastéttin fær eftirminnilega útreið, og eru þau atriði með því bezta í seinni hlutanum. Þar fara á kostum Karl Guðmundsson, Baldvin Halldórsson og Evert Ingólfsson, sem gefur hinum lítið eftir. Halla Guðmundsdóttir fer ljúflega með hlutverk bóndakonunnar, þó að útlit hennar stangist á við þær hugmyndir sem borgarbúinn gerir sér um bóndakonur! Þá ber líka að geta framlags áhugaleikaranna, sem eiga sinn þátt í að skapa rétta stemningu og gefa myndinni lit.

Þrátt fyrir ýmsas veikleika í dramatískri uppbyggingu og slakan endi þá er Punkturinn mjög ánægjulegur viðburður og merkilegur fyrir það, að þetta er mynd um ákveðið tímabil í Íslandssögunni, augnabliksupprifjun á því, hvernig allt var rétt fyrir stökið (hrunið) mikla. Áhirfa bandaríska hersins er að byrja að [gæta], gamli tíminn er að kveðja, sjónvarpið að halda innreið sína, og bílisminn að spóla upp leiksvæðin. Fagurfræðilega er myndin mjög fullnægjandi, hvert myndskotið á fætur öðru undurfagurt, ógleymanlegt listaverk, sem varðveitist í hugskoti manns lengi á eftir. Tónlist Valgeirs vekur þægilegar endurminningar án þess að trana sér fram nokkurstaðar.

Allt þetta fólk, Sigurður Sverrir, Þorsteinn, Björn, Fríður og Valgeir hafa unnið þakklátt verk, sem vonandi verður uppspretta að öðrum nýjum."