Kvikur sjór bakgrunnur

 


Fyrir nokkrum áratugum hljómuðu aflatölur í útvarpinu eins og stórfréttir og skipstjórar  voru tekjuhæstu menn þjóðarinnar. Það kom í ljós að grundvöllur þessara glæstu tíma var rányrkja.


1984 var gripið til þess ráðs, að takmarka sóknina, fyrst með reglugerð og frá 1990 með lögum um aflaheimildir eða kvóta, sem skipt var milli útgerða. Óþægilegar hliðarverkanir kvótans voru þær, að verð hans fór upp fyrir fiskverð og hindraði eðlilegan rekstur og nýliðun. Stærstu útgerðarfélögin eignuðust kvótann og gamlir fiskibæir urðu afskiptir.


Með kvótakerfinu átti að stjórna veiðunum og tryggja vöxt fiskistofnanna. En  stjórnmálamenn hafa frá 1984 sett kvótann að meðaltali 17% umfram ráðgjöf, þ.e. þol fiskistofna skv rannsóknum vísindamanna. Í 30 ár hefur ástand fiskistofna á Íslandsmiðum ekkert batnað þrátt fyrir yfirlýsta friðunarstefnu. Ein undantekning er þorskurinn síðustu 4 árin, en þann tíma hefur 20%aflaregla verið í gildi.


Hvort sem eignarhald og arður af kvótanum rennur til útgerðarmanna eða þjóðarinnar  má ekki gleymast, að mikilvægasta hlutverk kvótakerfisins er að viðhalda stofunum og stækka þá.


Lífríkið í sjónum kringum Ísland þarf að rannsaka betur, en reynslan bendir til að það þoli stærri veiðistofna. Meiri friðun mundi líklega tvöfalda þorskstofninn á örfáum árum.


Margir sjómenn heimta óhindraðar veiðar meðan fisk er að fá með öflugustu veiðarfærum. Sumir fara aftur og aftur á slóð, þar sem aðeins er ungviði að fá. Þrýstingur er frá útgerðarmönnum uppsjávarskipa að fá að veiða sem mest af loðnu, síld og makríl, sem er fæða þorsksins. Margir stofnar hafa verið ofveiddir á undanförnum árum. Hægt er að nefna síldina, ýsuna, karfann og lúðuna sem dæmi.


Þótt hægt sé að moka upp miklum fiski á litlu svæði á stuttum tíma segir það ekkert um ástand stofnsins. Eftirfarandi saga, sem er því miður sönn, lýsir hættunni sem við stöndum frammi fyrir með öflugan flota og duglega sjómenn:


(Hjálmar Vilhjálmsson:) „ [það var] bullandi veiði norður af Sléttu 1981/2. Menn keyrðu út og fylltu bátana. Talað um mikið af loðnu - ekki í hundruðum þúsunda tonna heldur í milljónum. Okkur til skelfingar kom í ljós að þá var engin loðna nema þarna. Veiðistofninn var allur samankomin á þessum bletti. Þessu var lokað eftir dúk og disk í desember. Við töldum að þá væru eftir 150-180 þús tonn. Á þessu sumri tóku þeir trúlega 80% af veiðistofninum.”