Fiskur undir steini

 

FISKUR UNDIR STEINI (1974)
16mm – 30:00 mín.

Í Listasafni Íslands gefur að líta upphafna mynd af hetjum, sem draga fisk úr sjó. Menningarmaður úr Reykjavík (Jón Júlíusson) ákveður að fara til Grindavíkur og kynnast af eigin raun lífinu í sjávarþorpi. Hann kemst að því, að þar búa hörkutól, og þar er þrælað myrkranna á milli. Reisulegt félagsheimili stendur í útjaðri þorpsins, en ekki virðist pláss í lífi þessa fólks til að njóta menningar og fagurra lista.
Sýning myndarinnar í sjónvarpi kveikti heitari umræðu um menningarmál á Íslandi en dæmi eru um fyrr eða síðar. Greinar voru enn að berast dagblöðum ári eftir sýningu myndarinnar.

Höfundar: Þorsteinn Jónsson, Ólafur Haukur Símonarson
Kvikmyndataka: Þorsteinn Jónsson
Hljóðupptaka: Ólafur Haukur Símonarson
Klipping: Þorsteinn Jónsson
 
 

 (úr Mbl/Lesbók, Laugardaginn 28. október, 1995)

 

"Sjónvarpsmyndin Fiskur undir steini (1974) eftir Þorstein Jónsson og Ólaf Hauk Símonarson varð þó fyrst til að vekja upp áköf skoðanaskipti hjá almenningi og er ein umdeildasta mynd Sjónvarpsins á þessu tímabili. Hún er heimildarmynd, tekin á 16 mm filmu um menningarlífið í sjávarplássi á Íslandi. Myndin olli miklu fjaðrafoki og töldu sumir lítið gert úr menningarlífi á Íslandi. 

Þorsteinn Jónsson, kvikmyndagerðarmaður:

Efni myndarinnar var neysla menningar í fiskiþorpi á Íslandi. Hún var sú fyrsta af fimm eða sex myndum um ýmsar hliðar á því máli. Á eftir öllum myndunum voru umræður í sjónvarpssal og mismunandi mikil blaðaskrif í kjölfarið. Í Fiski undir steini sýndum við hvernig gestur kemur til þorpsins í leit að menningarlífi. Með nokkru háði veltir hann fyrir sér eðli og gæðum ýmiss konar menningarstarfsemi í þorpinu. Ef undan er skilinn háðslegur tónn gestsins, var beitt hefðbundinni heimildarmyndatækni. Myndin var eins heiðarleg og miskunnarlaus athugun á lífinu í þorpinu, eins og það kom gesti fyrir sjónir. Ekkert var sett á svið, en klipping og tónlist notuð til að koma skilaboðunum áleiðis. Skilaboðin voru þau, að fólkið í þorpinu ætti þess ekki kost að njóta menningar, m.a. vegna þess að vinnan tók næstum allan sólahringinn. Við höfðum ekki hugmynd um hvílíkan sprengikraft þessi mynd hafði. Það var líkt og spegli hefði verið brugðið upp. Svona er menningarlífið á Íslandi. Meirihluti þjóðarinnar lifir eins og í vinnubúðum, þótt það eignist peninga til að byggja glæsilegar villur og kaupa það sem hugurinn girnist. Myndin snerti viðkvæman blett á þjóðarsálinni og hún breytti líka verðmætamatinu í þjóðfélaginu. Hugmyndin með myndinni var líka að sýna hvernig hægt væri að nota sjónvarp. Allt efni átti að vera hlutlaust, sem kallað var. En okkar skoðun var sú, að í myndum sjónvarpsins ættu að koma fram skoðanir eða skilaboð, en vandi stjórnenda væri að velja höfunda með mismunandi skoðanir svo myndirnar spegluðu umræðuna í þjóðfélaginu.

 Myndin hristi rækilega upp í menningarlífinu, því fólk fór í auknum mæli að setja upp leikrit og myndlistarsýningar í helstu sjávarplássum. Þótti mörgum jafnvel nóg um og var skopast að þessari menningarviðleitni í áramótaskaupinu sama ár."


(Á aldarafmæli kvikmyndalistarinnar:
Sjónvarpsbyltingin á Íslandi - og áhrif hennar á íslenska kvikmyndagerð fram til 1979  Fyrri hluti Eftir ODDNÝJU SEN)