BÓNDI (1974)
16mm - 29:36 mín.

Klassísk heimildamynd um bónda í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp, Guðmund Ásgeirsson, sem hefur búið án rafmagns, véla eða vegarsambands. Þetta er saklaus sveit, fjarri þéttbýlinu, sem aðeins fáir hafa augum litið. Nú er verið að leggja veg inn Djúpið og vegurinn kemur að notum, þegar kemur að því að hætta hokrinu, fella fjárstofninn og koma sér í þéttbýlið.
Myndin fékk 1. verðlaun á fyrstu Kvikmyndahátíðinni í Reykjavík 1975.



Framleiðandi: Kvikmynd
Handrit, kvikmyndataka, klipping: Þorsteinn Jónsson
Hljóðblöndun: Sigfús Guðmundsson Þulur: Baldvin Halldórsson
Tónlist: Grieg





Tal og texti:

 

Við firðina í Ísafjarðardjúpi var áður þét byggð. Fólkið hafði lífsviðurværi sitt úr sjónum. En smám saman hvarf fiskurinn úr djúpinu vegna ofveiði. Landið var hrjóstrugt og auk þess vantaði rafmagn og veg, til þess að hér væri hægt að stunda búskap með nútímasniði. Bæirnir lögðust í eyði einn af öðrum og fólkið fluttist burt, þangað sem lífið var léttara. Guðmundur bóndi er einn hinna fáu, sem enn hokra í sínum firði þrátt fyrir einangrunina. 

Guðmundur: Það er ekkert að segja af þessu lífi. Ég var til sjós frá því ég var tólf ára, byrjaði á skektum, svo á trillum, svo á stærri bátum og útilegubátum. Ég ætlaði mér að verða sjómaður. En það fór nú svona samt. Móðir mín sáluga dó 1932 og þá var faðir minn sálugi veikur allt sumarið, svo ég varð að vera heima. Hér hef ég búið síðan 1939. Þá vorum við búin að eignast tvö börn, en það fyrsta dó. Þau voru þrettán, tólf lifandi, sjö synir og fimm dætur. Eins og þið sjáið, þá er þetta lítið annað en grjót og þúfur. Maður gerir lítið annað en að brýna. 

Öðru hvoru hafa þeir verið að lofa vegi, mest þó fyrir kostningar. Og það yrði áreiðanlega akfært bráðlega ef fólkið kysi rétt. En það dróst að vegurinn kæmi og Guðmundur er hættur að láta plata sig á kjörstað.

Guðmundur: Það eru þrjú ár síðan var rutt hérna yfir, en það var nú ruðningur kominn áður. Það eru sjálfsagt ein sex ár síðan. Ég set það ekki svo á mig. Nei, ég hef aldrei verið spenntur fyrir... Annars átti hann að koma öðruvisi fyrst. Hann átti að leggja fyrir ofan símastaurinn og inn túnið. Svo var því breytt, farið men hann niður í fjöru. Já, þeir vildu færa pakk húsið í burtu. En ég var nú tregur á því. Ég spurði hvað þeir vildu borga fyrir það. Ef farið væri að rífa hjallinn þá yrði hann ónýtur. Ég man ekki hverju þeir stungu upp á, fimmtíu þúsundum. Ég sagði að þeir fengju hann ekki fyrr minna en þrjú hndruð þúsund. Svo það varð nú aldrei af því, að hann yrði hreyfður. Hann hefði lagst saman, hefði átt að fara að ýta honum ofan fyrir. Það hefði þurft að byggja nýjan. Það hefði kostað skildinginn há þeim. Þeir hefðu orðið að gera það sjálfir. Maður var uppá gamla móðinn. Ég vissi, að ég mundi aldrei eignast bíl. Það verður enginn friður með neitt, þegar vegurinn er kominn. Það verður allt mölvað og bramlað í sundur. Það er textinn orðið hjá þessum æskulýð, skemma og brjóta. Því er nú ver og miður. Þetta eru svo fáar jarðir hér, sem búandi er á, sem hafa skilyrði til þess. Og nú til dags er ekki búandi nema með véltækni. Hitt verður svo dýrt og fólk ekki fáanlegt í sveit. Maður hefur ket og mólk náttúrulega og kartöflur. Það framleiðir maður sjálfur. En manni brygði við að fara í kaupstað og þurfa að kaupa hvern njólkurdropa og kjöt. Nú verður það sjálfsagt dýrt í haust. Þetta eru engin afköst hjá manni án véla. Það er ekki efnilegt til búskapar svona kot. Þau leggjast bara í eyði. Það er ekki hægt að búa á svona kotum. Maður dundar við... ja ég hef prjónað á veturna og að lesa náttúrulega, þegar maður sér til. Ég á slatta af þessum reyfurum, Íslendingasögurnar, Norðurlandasögurnar. Það var hér bókasafn, en það er búið að vera fyrir löngu síðan. Það fór allt, þegar fólkið flutti í búrtu. Það var yfir áttatíu manns hér í kringum Fótinn, þegar mest var.

Hér eru litlir ræktunarmöguleikar og erfitt að koma vélum við til að létta störfin. Hesturinn er notaður til dráttar, allt annað er gert með höndunum. Á hverju ári talar hann um að hætta og flytjast burt. Börnin bíða eftirvæntingarfull eftir því að komast til kaupstaðarins. Af tólf börnum þeirra Guðbjargar eru þrjú eftir heima. Þau hafa aldrei komið til kaupstaðarins og þekkja ekki nútímann með vélmenningu og sjálfvirkni. Á þeirra bæ er aðeins til ein vél, rokkurinn í trillunni. Eldri börnin eru uppkomin og stunda vinnu í kaupstaðnum.

Guðmundur: Maður ræður ekkert við börnin eftir að þau eru farin. Maður getu ekki sagt neitt. það er best að láta þau vera sjálfráð. Þau verða að þreifa bara fyrir sér.

Allir synirnir hafa stundað sjó eftir að þeir fóru að heiman. Guðmann rær frá Ísafirði. Þeir Gvendur skipstjóri eiga bátinn saman og eru á rækju. Bárður og Ólafur leika sér á heimasmíðuðu bátskríli, þá sjaldan Guðmundur bóndi gefur þeim frí. Þeir ætla líka að verða sjómenn. 

Einu sinni á ári er messað í sveitinni. Það er óvenjumargt fólk við messu, en Guðmundur bóndi er ekki meðal kirkjugesta. Hann leyfir þó litlu krökkunum að fara í þetta sinn. margir gestanna eru fæddir hér í firðinum en hafa flust til kaupstaðarins með foreldrum sínum.

Prestur: Breyttir hættir eru í uppsiglingu, ef orða má það svo. Fyrir svo utan þá miklu breytingu sem allstaðar hefur þegar sett sterkan svip á flestar guðsþjónustur vorar, hina svokölluðu almennu og venjulegu guðsþjónustu. Því að nú sækir fók kirkju minna en áður var, svo lítið stundum að vart eða ekki er messufært oft, og síðan sú tíð leið undir lok, að hver syngi með sínu nefi, sem kallað er, sem gert var hljóðfærislaust...

Kórinn: ...Samfélag heilsgs anda sé með yður öllum, amen.

Einu sinni flutti Guðmundur burt, og bjó eitt ár á ágætri jörð, þar sem ræktunarskilyrði voru góð, vegur og rafmagn og skóli fyrir börnin rétt hjá. En hann kunni ekki við sig og sneri aftur til hins afskekkta fjarðar. 

Nú ætlar hann að hætta búskap og flytjast til kaupstaðarins. Í þetta skipti er hann ákveðinn. Hann getur ekki séð um gegningarnar einn, þegar börnin fara í heimavistarskóla í vetur. Ekkert lamb verður sett á veeturinn. þau fara til sláturhússins og flestar ærnar með. Eldri synirnir hafa komið úr borginni að hjálpa til.

Næsta haust er Guðmundur enn á Kleifu ásamt Guðbjörgu og börnunum.

Guðmundur: Ég hefði átt að vera farinn héðan fyrir nokkrum árum. Það hefur dregist bara svona. Ég hef setið af mér góð tækifæri. Ég get selt þetta undireins, þetta kot. Fólk er orðið spennt fyrir því að reisa sumarbústaði í afskekktum sveitum. Það er komið í tísku. Það fer enginn að búa á svona koti. En eftir svona mörg ár kann maður ekki við sig nema á sama stað.  Maður er orðinn gróinn. Þó maður geti það ekki. Ætli það endi ekki með því að ég verð að flytja, ef eg get komist yfir hús. Nú eru þau orðið dýr. Nú eru það bara milljónir. Þegar maður hættir þessu búskaparhokri, þá getur maður ekkert gert nema að dunda eitthvað við sjóinn eins og maður gerði áður, en nu er maður ekki orðinn maður til þess. Svo það er ekki efnilegt að hlaupa í burtu. Það er best að vera í sinni sveit. 

Vegurinn er loksins kominn. Þó frestar hann ekki endalokum þessa einfalda og erfiða lífs. Innan skamms leggst jörð í eyði. Fólkið flyst til kaupstaðarins. Vélar og verksmiðjur koma í stað jarðar og náttúru. Hinn langþráði vegur mun koma að gagni þegar íbúarnir yfirgefa þennan afskekkta fjörð.






 
 

Bóndi