Atómstöðin

 
 
 

 Úr gagnrýni Morgunblaðsins

"Lykilpersóna verksins, sjálf Ugla, er hér ekki klædd í þann búning sem henni er fenginn í texta Laxness. Í stað þess að velja í þetta hlutverk bláeyga sveitastúlku með roðann í austri í vöngum velur Þorsteinn Tinnu Gunnlaugsdóttur sem hefur yfir sér dimmu asfaltfrumskógarins. Snjöll lausn hjá Þorsteini, því með vali Tinnu í hlutverk Uglu, kemur hann í veg fyrir að myndin fái yfirbragð austrænna fimmáraáætlunarmynda slíkra sem gerðar voru kringum '50. 

Tinna tengir sum sé þann heim er birtist í Atómstöð Þorsteins við þann áttlausa, marglita heim er við nú lifum. Ugla er hér meira að segja með slöngulokka og gæti þess vegna verið nýsloppin út úr Þjóðleikhúskjallaranum. Máski sjáum við í Uglu Þorsteins Jónssonar - kvendýr allra tíma. Veru sem lætur eðlisávísun og heilbrigða skynsemi ráða hvað sem tautar og raular í henni veröld. Þannig verður Ugla Þorsteins/Laxness einskonar prófsteinn á heiðarleika og heillyndi þeirra sem byggja þennan heim hverju sinni. Það skiptir ekki máli hvort hún er nýstigin út úr Þjóðleikhúskjallaranum eða útúr langferðabifreið frá Norðurleið, hún sér umhverfið ætíð í heilbrigðu raunsönnu ljósi. Þannig má vera að Tinna Gunnlaugsdóttir færi þá atómstöð er Halldór Laxness skóp fyir 35 árum til þess tíma er við nú lifum. Að við greinum í viðbrögðum hennar viðbrögð unglingsstúlkunnar við Atómstöð þeirri er gín yfir okkur á því herrans ári 1984.

Frá þessu sjónarhorni má líta svo á að Búi Árland, Kleópatra og Organistinn séu sígildar táknmyndir auðvaktar til lífs á öllum tímum af tilfinningum og kommonsens Uglu. Í það minnsta virðist mér Þorsteinn Jónsson og félagar ganga út frá slíku er þeir láta Tinnu halda slöngulokkunum. Ég tel persónulega að þessi skoðunarháttur eigi rót að rekja til þess, að þeir Þorsteinn séu enn haldnir hinni svart/hvítu lífssýn, sem gerir ráð fyrir, að séu hlutirnir skoðaðir með augum Uglu, - hinu "...lifandi tákni alþýðunnar", "allrar alþþýðu" eins og stóð í Þjóðv. 23 júní 1848, - þá séu þeir alltaf eins. Búi Árland sé jafn andskoti sleipur og háll og hann var fyrir 35 árum, Organistinn megi finna í nýuppgerðum stofukommahúsum og hún Kleópatra sé enn að veltast um stræti borgarinnar óskandi þess að "ásttandið" vari að eilífu."

"Mikið vildi ég að þeir Þorsteinn hefðu lagt það á sig að túlka þann tíma sem Laxness  festi hendur á í Atómstöðinni. Í stað þess að hafa Uglu með slöngulokka, hefðu þeir fengið læramikla frauku, slíka sem sjá mátti á dráttarvélarauglýsingum Kremlarbóndans, Hannes Gissurarson hefði síðan mátt spreyta sig á Búa Árland, Bubbi Mortens hefði verið kjörinn í hlutverk Organistans og í hlutverk Kleópötru hefði mátt velja einstæða þriggja barna móður sem verðu að sjá fyrir sér og sínum með vændi. Af hverju ekki að hrista svolítið upp í okkur sem nú gistum Atómstöðina? Laxness skrifaði þetta verk í bræði sinni   og vildi þar með kasta bombu inn í samfélag fimmta áratugarins. Vilji menn ekki væta púðrið í þeirri bombu verða þeir að skipta gersamlega um tundur, það er ekki nóg að hafa Uglu með slöngulokka, en hitt dótið einsog eftir formúlu þeirri sem Stalín, A. Tolstoj og M. Gorkij hnoðuðu yfir kaffibolla á því herrans ári 1932, og nefnd hefur verið Sósíalískt raunsæi.

Ég læt þetta með raunsæið ligja milli hluta en hitt er ljóst að Þorsteini Jónssyni og félögum hefur tekist stórvel að skapa raunsanna mynd af umgjörð þess tíma er Atómstöð Laxness gerist á. Fannst mér einkar notalegt að hverfa um stund til þess tíma er kommar gengu með hornspangargleraugu en kapítalistar voru í þykkum herðabólstruðum ullarfrökkum og alltaf með hatt. Efast ég stórlega um að jafn veglega endurgerð líðinna tíma sé að finna á annarri íslenskri filmu. Er leikmynd Sigurjóns Jóhannsssonar hreint óaðfinnanleg, nema ef vera skyldi Alþingishúsið eftir slaginn mikla, að ekki sé talað um búninga Unu Collins og Dóru Einarsdóttur. Þá vil ég benda mönnum að taka vel eftir förðun Rognu Fossberg og hárgreiðslumeistaraverki Guðrúnar Þorvarðardóttur.

Í raun er hér um svo fullkomið heljarstökk í tímanum að ræða að mynd þessi hlýtur að teljast mikilsvert innlegg í Íslandssögukennslu slíka sem kenna á með gamla laginu. Hér er ég nú kannski kominn út á hálan ís, því eins og allir vita getur sósíalískt raunsæi ekki talist hlutlægt mat á veruleikanum og þar með gild sagnfræði, en ég á hér bara við að umhverfislýsing myndarinnar gefi býsna góða mynd af horfnum tíma, hvað sem líður hugmyndafræðinni. Þá skemmir ekki að sennilega hafa íslenskir leikarar aldrei staðið sig með jafn mikilli prýði á hvíta tjaldinu og í þessari mynd. Húrra fyrir íslenskri leikarastétt!

Vil ég þá fyrst nefna Tinnu í hlutverki Uglu. Höfuðstyrkur hennar sem leikkonu er augnaráðið í senn dýrslegt og athugult. Slík rándýrsaugu eru sjaldgæf á hvíta tjaldinu og kæmi mér ekki á óvart þótt þeim þætti fengur að henni í Hollywood, þar sem lamakjötið er í hvað hæstu verði. Gunnar Eyjólfsson sveipar persónu Búa Árand slíkum ástúðarljóma að maður næstum gleymir vélabrögðum þessa slungna stjórnmálamanns, sem Bjarni frá Hofteigi taldi táknmynd sjálfrar borgarastéttarinnar. Þóra Friðriksdóttir fer undarlega fislétt með hlutverk Kleópötru. Árni Tryggvason í hlutverki Organistans og Baldvin Halldórsson í hlutverki Uglupabba, hafa yfir sér þennan sósíalrealíska góðmennskusvip sem mótaður var austur í Moskvu á sínum tíma og sjá má á ýmsum verkalýðsleiðtogum og jafnvel atvinnurekendum þessa dagana. Afturámóti er yfirstéttarfés Árlandsfrúarinnar skemmtilega uppveðrað af kapítaliskum skítamóral, sem Jónína Ólafsdóttir kann greinilega full skil á. Guðirnir og atómskáldin - hin skilgreinu afkvæmi atómbombunnar - eru í höndum hins kómíska Sigurðar Sigurjónssonar sem hér fellur í skuggann af Barða Guðmundssyni. Og ekki má gleyma hinum skilgetnu afkvæmum borgarastéttarinnar sem á sinn hátt bregðast svipað við atómstöðinni og guðirnir. Guðnýju Árland leikur Sigrún Edda Björnsdóttir. Heillandi leikkona Sigrún Edda og fær áhorfandann til að finna ríka samúð í garð þessaraar fordekruðu en tilfinningaheftu borgarastelpu. Bróður hennar leikur Helgi Björnsson af fullkominni innlifun að ekki sé talað um yngri krakkana í fjölskyldu Búa. Við þurfum ekki að kvíða framtíð íslensks leikhúss með slík skrautblóm í garði og er ekki all upp talið sem fyrir augu bar.

Þá er bara eftir að minnast á kvikmyndunina sem var mjög í anda hins sósíalrealíska skoðunarháttar og því ekki nema að litlu leyti á ábyrgð þess ágæta kvikmyndatökumanns Karls Óskarssonar. Nú, og hvað með hljóðið, þetta  vinsæla vanræðabarn íslensks kvikmyndaiðnaðar. Nú er ekki lengur hægt að skammast út í þann þátt kvikmyndagerðar vorrar. Hljóðmyndin var sum sé einsog best verður á kosið. Ég læt forsögu þeirrar tónlistar er hér hljómar liggja á milli hluta, mest er um vert að tónlist Karls Sighvatssonar lífgar myndina þótt stundum sé þar skoti yfir markið hvað varðar tónstyrk. Klippng Nancy Baker er sömuleiðis fagmannleg og raunar er öll myndin óvenju fagmannlega gerð og kjörin fyrir þá sem vilja upplifa þann tíma er Halldór Kiljan Laxness lýsir í bók sinni Atómstöðinni."

"...hneigðinni til djarfrar stílfærslu [er] ekki gefinn laus taumurinn í mynd Þorsteins, en fremur hneigst að raunsæisstefnu ljósmyndarinnar. En við getum nú ekki gert kröfu um nema svo sem einn Laxness á öld.

Hitt er okkur hollt að hafa í hug að: Enginn fellur fram án þess að meiða sig. Ég fann þessa setningu reyndar í ritdómu um Atómstöðina í Þjóðviljanum frá því herrans ári 1948.  Ég held hún eigi ekki bara við á hinum stjórnmálalega vettvangi, heldur líka hinum menningarlega, þar sem menn blindast gjarnan af ofurstirninu og flækja þar með hendur sínar í ósýnileg bönd. Kannski erum við öll í fjötrum slíkra manna án þess að vita af því - lokuð innan múra atómstöðvanna. Í það minnsta fannst mér hið einstaklega vandaða kvikmyndastórvirki Þorsteins Jónssonar gefa slíkt í skyn, verst að sá ágæti maður skyldi ekki muna betur eftir ummælum Laxness er koma fram í viðtalsbók Matthíasar: Það verður að skilgreina hugmyndirnar frá degi til dags, annars tapa þær allri merkingu. Heimurinn bíður ekki kyrr frá degi til dags. Á okkar dögum þarf að skilgreina sósíalismann á nýjan leik með stuttu millibili ...þjóðfélagið góða sem við ætluðum að skapa er hætt að vera skurðgoð eða guðsmynd."

(Ólafur Jóhannesson) 

Úr gagnrýni Tímans


"Handritshöfundar, Þorsteinn, Þórhallur og Örnólfur, hafa tekið afmarkaða þætti úr sögunni og gert þeim fullgóð skil, aðrir þættir mikillsverðir hverfa í skuggann svo að sú heildarmynd sem sagan er lætur óhjákvæmilega nokkurð á sjá.

Myndin hefst á að bregða upp einfaldri mynd þeirra tveggja heima sem sagan lýsir: Í stofu Búa Árland sitja valdamenn yfir kortum og myndum þeirra staða þar sem reisa á herstöðvar á Íslandi, -Ugla Falsdóttir í Eystridal gætir lamba. Pólitískur þáttur verksins reynist að vísu nokkuð fyrirferðarmikill, til muna meira upp úr honum lagt hér en [í] leikgerðinni sem sýnd var í Iðnó á árinunum.   Engu að síður verður annað aðalefni myndarinnar: Samband Uglu og Búa og dvöl hennar í húsi hans."

"Pólitískur broddur verksins hefur óneitanlega sljóvgast í meðförum kvikmyndagerðarmanna. Tíðarblærinn hefur einnig raskast sem birtast skal í djúpi því milli alþýðu og yfirstéttar sem sagan lýsir með sterkum orðum. Það atriðið, þótt lítilvægt kunni að þykja, að afnema að mestu þéringar að nútímasið, stuðlar að þvi að veikja þetta þýðingarmikla atriði. Stéttarandstæðurnar hverfa, líkt og þær eru horfnar af yfirborði samfélags okkar daga.

Samband Uglu og Búa verður aðalviðfangsefnið, sagði ég. Því eru gerð afar hreinleg og smekkleg skil í myndinni. Tinna Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eyjólfsson fóru vel og skynsamlega með hlutverkin. Tinna er raunar ekki sú manngerð sem Ugla sögunnar er, yfir henni er ekki sá blær "norðanmennsku"  sem mest fór í taugarnar á frú Árland, hún getur varla verið persónugerð sveitaalþýðu. En Tinna kemur engu að síður ágætlega fyrir á tjaldinu, blátt áfram, heilbrigð og einörð eins og vera ber. Gunnar hlítir ágætlega þeim kröfum sem gera verðu til Búa: frjálsmannlegur heimsmaður, aðlaðandi. Kannski skortir hann þann djúpa tragíska undirtón sem fylgja hlýtur þeim manni sem veit sig dæmdan ásamt allri sinni stétt, af því allt á að hrynja og eyðast þegar kapítalisminn dregur heimsmenninguna með sér í fallinu, -nema þá Patagóníu sem reyndar kemur ekki við sögu hér.

Í húsi Árlandsfjölskyldunnar eru frúin og börnin. Úr frúnni  varð reyndar lítið í meðförum Jónínu Ólafsdóttur. En Guðný Aldinblóð (þess nafns saknaði ég) er prýðileg. Sigrún Edda Björnsdóttir veitir henni allan þann gelgjusvip sem ákjósanlegur er. Og atriðið þar sem faðir hennar kemur með hana eftir fóstureyðinguna var verulega áhrifamikið, ekta.

Þeir pólar sem líf Uglu er sett á milli eru annars vegar í húsi Árlandsfjölskuldunnar, hins vegar í húsi organistans. Það er veikasti hlekkur myndarinnar hversu lítið verður úr því húsi. Guðirnir, Kleópatra og það lið sem hópast um húsið verður heldur utan garna, en tilfinnanlegast er að organistinn sjálfur bliknar. Hvað sem segja má Árna Tryggvasyni til lofs réð hann engan veginn við þá paradoxa sem honum eru lagðir í munn upp úr sögunni, og hinu dularfulla andrúmslofti sem umhverfis organistann er náði hann alls ekki að miða. Annars má segja að í texta organistans hatti mest fyrir. Handritshöfundar taka tilsvör úr texta höfundar og auka við eigin texta sem auðvitað er hversdagslegur og fjarri þeirri spennu sem orðræður Halldórs eru gæddar."

 "Sagan var sprengja  á sinni tíð, hún lýsir myrkum heimi á glötunarvegi, sama sasmfélagi og Ólafur Jóhann Sigurðsson hefur nú lýst með allt öðrum hætti í hinni miklu sögu sinni af Páli Jónssyni. Þegr þetta er haft í huga kann kvikmyndin Atómstöin að vera fullbjört og falleg.

Ég hef ekki nefnt allt sem ástæða væri til í þessari umsögn eða talið leikendur sem allir skila sínu eins og til stendur. Kvikmyndatakan virðist vel heppnuð, hljóðið gott. Myndin í heild sinni er ekki frumleg nýsköpun og heldur ekki rækileg eða sannferðug endurgerð sögunnar í myndmáli, eins og sjónvarpsmyndin eftir Paradísarheimt um árið. ' Atómstöðin er smekkleg og falleg  filmun á ákveðnum efnisþáttum  sögunnar, skilmerkileg greinargerð án þess að kafa djúpt í efnið. Af henni má vissulega hafa ánægju eins og hún líður fyrir sjónir manns á tjaldinu. Og þá er ekki annað eftir en óska kvikmyndafélaginu Óðni góðs gengis með myndina og til hamingju með hið djarflega framtak sitt. Þetta mun í fyrsta sinn sem Íslandingar standa einir að því að kvikmynda sögu eftir Halldór Laxness og er gaman að það skuli hafa tekist með fullum sóma."

(Gunnar Stefánsson)

Úr gagnrýni Þjóðviljans

"Atómstöð Þorsteins Jónssonar og félaga er kvikmynd sem gerist á einhverjum mestu örlagatímum í sögu íslensku þjóðarinnar og segir sögu af einstaklingum sem lifa þessa tíma, ýmist sem beinir þátttakendur í atburðarásinni (Búi Árland) eða saklaus fórnarlömb hennar (Ugla). Hún segir okkur sögurn af norðanstúlkunni Uglu og kynnum hennar af borgarlífinu, borgarastéttinni, stéttabaráttunni, karlmönnum... Semsagt, persónuleg reynslusaga með örlagaríka atburði í þjóðlífinu að baksviði.

Um þessa atburði hefur verið sagt að þeir hafi skipt þjóðinni í tvær fylkingar. Þeir hafa hins vegar verið hálfgert feimnismál í bókmenntum okkar til skamms tíma. Kvikmynd sem sýnir okkur þessa tíma hlýtur að vera vel þegin og vissulega á hún erindi til okkar í dag. Atómstöðin er hér enn, og enn liggur vígvöllurinn "gegnum miðja vitund okkar sjálfra" eins og Búi Árland sagði.

Mér þótti höfundum kvikmyndarinnar takast mjög vel, einkum framan af, að sýna andrúmsloft tímans, óvissuna, spennuna, blikurnar a lofti. Leynimakkið á heimili Búa Árlands, útifundurinn, útvarpsfréttirnar - allt var þetta einkar vel gert og sannfærandi. Tónlist Karls Sighvatssonar átti mikinn og góðan þátt í að skapa þetta andrúmsloft.

Heimili Búa Árlands og allt sem þar gerist er að mínu mati sterkasti þáttur myndarinnar, og þar á leikmynd Sigurjóns Jóhannsssonar stóran hlut að máli, einnig vel heppnuð kvikmyndataka Karls Óskarssonar og síðast en ekki síst leikur Gunnars Eyjólfssonar, Jónínu Ólafsdóttur, Sigrúnar Eddu Björnsdóttur og Helga Björnssonar í hlutverkum Árlandshjónanna og barna þeirra.

Hinn heimurinn í myndinni - heimur organinistans, þykir mér verða dálítið útundan og ekki skila sér eins vel. Að vísu mydar hann ákveðið mótvægi við fína húsið, myndrænt séð, og það er dálítið erfitt að benda á hvað það er, nákvæmlega, sem vantar. Fyrir mína parta hallast ég helst að því að það sé organistinn, sem ég vildi hafa öðruvísi Árni Tryggvason hefur að vísu til að bera hlýju og rósemi, sem eiga vel við, en mér fannst hann ekki koma til skila djúpvitrum athugasemdum organnistans á nógu sannfærandi hátt og þar af leiðir að andrúmsloft "hússins bak við húsin" var  einsog dálítið tómlegt og skapaði ekki það hugmyndalega mótvægi við hús Búa Árlands sem þurft hefði.

Margt var þó skemmtilegt sem tengdist húsi organistans, t.d. var hlutverk Kleópötru í góðum höndum Þóru Friðriksdóttur, sem tókst að skapa tragikómíska fígúru með miklum ágætum. Sjálfsmorðstilraunaatriðið og barsmíðarnar við flygilinn heppnuðust einnig vel.

Ugla er að sjálfsögðu stærsta og vandasamasta hlutverk myndarinnar. Sú Ugla sem Tinna Gunnlaugsdóttir skapar er ekki hin sama og ég hef þekkt síiðan ég las bókina fyrst fyrir margt lögnu. Það er enginn hægðarleikur að losa sig við slíka fordóma og mér gekk það satt að segja bölvanlega. Ég hefði kosið að Ugla væri jarðbundnari og forvitnari. En ef ég reyni að horfa burt frá þessum ósanngjörnu kröfum mínum verð ég að viðurkenna að Tinna gerði margt mjög vel, og best fannst mér henni takast upp í samskiptum sínum við börnin í húsinu, einkum þau elstu, Arngrím og Guðnýju.

Það var vel til fundið hjá handritshöfundum að gera eina persónu úr feimnu löggunni og kommanum, búa til Gunnar og láta Arnar Jónsson leika hann. Með þessu móti verður ástarsaga Uglu einfaldari og val hennar að lokum verður einnig pólitískt. Engu að síður var ekki last við að mér þætti endirinn einfaldur um of og minna dálítið á það fræga fyrirbæri, happy ending.

Atriðin í sveitinni voru sannfærandi - kirkjubyggingin, kirkjuvígslan og útför skáldsins. Það vefst dálítið fyrir mér hvort fólk sem ekki hefur lesið bókina og þá einkum útlendingar (það á að dreifa myndinni erlendis) fái nokkurn botn í þetta tilstand með ástmög þjóðarinnar og kistuna sem í er danskur leir. Kannski eru slíkar vangaveltur óþarfar, en þetta er þónokkurt atriði vegna endisins, sem er  táknrænn og byggir á því að menn viti hvað er að gerast í kirkjunni og hvernig það tengist leynimakkinu og landssölunni.

Hér hefur ýmislegt verið tínt til, kannski í aðfinnslutón, en þegar upp er staðið verður hitt þó ofan á að fagna þessari mynd. Hún er fagmannlega unnin, falleg og síðast en ekki síst fjallar hún um tíma og atburði sem skiptu sköpum í lífi þjóðarinnar. Þetta er kvikmynd sem skiptir okkur máli. Kannski er hún einkum mikilvæg fyrir þá sem hvorti muna tímana sem hún fjallar um né hafa lesið bókina, fyrir unga fólkið í landinu, stálpuð börn og unglinga - Ég hugsa að þau geti mikið af henni lært á þann hatt sem best er að læra, þ.e.a.s. með því að skemmta sér um  leið, því Atómstöðin er skemmtileg mynd og áhugaverð fyrir margra hluta sakir.

Það tók langan tíma að gera þessa  kvikmynd, a.m.k. á íslenskan mælikvarða, en þeim tíma var vel varið. Héðan í frá verða gerðar harðari kröfur um vönduð vinnubrögð til íslenskra kvikmyndagerðarmanna, og á það einkum við um handritsvinnu, sem hingað til hefur oftast verið slappasti hlekkurinn i keðjunni, en hér hefur augsýnilega verið lögð mikil rækt við, með góðum árangri.

(Ingibjörg Haraldsdóttir)

 

Úr gagnrýni Helgarpóstsins


"Sagan kom á prent 1948  og eftir það var engu líkara en ráðamenn fylgdu forskrift Halldórs í einu og öllu. Skáldsagan hefur æ síðan veitt sýnu betri upplýsingar um aldarfar og tíðaranda en flest önnur skrif um þetta tímabil, ekki síst í ljósi þess að Atómstöðin lýsir þversniði af íslensku samfélagi með djúpstæðri athyglisgáfu skáldsins sem getur leikandi í skjóli listar sinnar og verkkunnáttu brugðið á tjaldið lifandi myndum. Allt annað "les" um þessa daga er dautt af flokkshöollustu og einsýni.

Atómstöðin er ennþá virkt tundurskeyti í bólvirki íslenskrar borgarastéttar - og ef þú fussar yfir "borgarastétt", lesandi góður, skaltu leita uppi vikugamlan Helgarpóst og skoða betur langa grein um Halldór Jónsson arkitekt og sjórnarforman. Rétt eins og saga Halldórs frá Laxnesi olli ofsaköstum hjá betra fólki í bænum 1948, hefur þessi mjóa bók alltaf hleypt af stað gamalkveðinni hatursromsu í Mogganum, og á eftir að gera það enn. Með sögunni reisti Halldór borgurum landsins níðstöng sem seint verður felld - stéttinni í heild var gerlýst í háttum sínum og menningu, hugsjónir hennar krufnar með snyrtlegu handbragði af manni sem þekkti þetta allt.

En Halldór gerði meira: til að skapa við víðmynd í verkið stillti hann andspænis þessum öðrum heimum, báðum á fallandi fæti; heimi Organistans sem býr í launkofa í borginni, og heimi Fals í heiðardalnum. Það er svo Ugla sem fer þessar slóðir, í hvert sinn reyndari og vísari um vilja sinn og annarra. Atómstöðin er fyrst og fremst þroskasaga hennar, lýsing á vitund sem breytist og víkkar í sálufélagi við Búa og hans fólk, Organistann og hans hyski og svo fólkið í dalnum - heima.

Það var óhjákvæmilegt að Atómstöin yrði kvikmynduð, frekar fyrr en seinna, af okkar mönnum eða öðrum. Strax og farið var að krukka í söguna til leiksýningar komu menn auga á filmískt eðli hennar: hér var greinilega stoff í hina stóru borgaralegu kvikmynd, fyrirtæki sem gat sett mörg heimili á hausinn og haldið fleiri en einum draumóramanninum andvaka. Viðfangsefnið lagði líka vinnufólkinu þungar skyldur á herðar; þekkingu á lífsháttum fornum í afdölum landsins og rótgrónum borgaraskap með rætur aftan úr grósseraveldinu, að ógleymdri sérkennilegri bóhemíu í Grjótaþorpinu. Þetta verk varð að kosta  langa yfirlegu á handritstigi, þeir menn urðu að bera í senn ótakmarkaða virðingu fyrir textanum og handfjalta söguna eins og leir, móta hana að nýjum miðli. Svo urðu þeir að hafa glás af peningum.

Og nú er Atómst-öin komin á filmu.

Þeiur hjá Óðni líktu handritsvinnu sinni við skemmdarverk: Dýr kaleikur var brotinn og úr steypt ausa. En ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið...

Í kvikmyndinni er áhersla lögð á landsölumál, sambúð Uglu með Árlandsfólkinu, ástarraunir hennar og beinasöluna; útúr sögunni eru fjölmargir þættir, guðirnir missa sín að mestu leyti, feimna og ófeimna lögreglan hverfa, Bítar og Óli fígúra eru úr sögunni. Þá er ótalið margt umræðuefnið; einkum gætir þess í sögupartinum af Organistanum, en margt spakmælið dettur líka út úr orðaskiptum Uglu og Búa.

Handritið er samt heilleg úttekt á sögunni, og þegar maður rifjar upp atburðarás kvikmyndarinnar sýnist manni þeim hafa tekist nokkuð vel við úrvalið. Vitaskuld orkar allt tvímælis, einkum ef áhorfandinn er kunnugur sögunni. Mér þótti rangt að fella burt feimnu lögregluna og hennar glæp, svo mikið var eftir af hennar hlut í persónunni sem kom í staðinn, Gunnari sjómanni; ég sá engan akk í þeirri bretingu. Leit það ekki nógu vel út að hafa barnsföður hennar löggu? Eða skildu menn ekki íróníuna í þeirri skipan mála? 

Vandasöm er einföldun á atburðarás í svo vel fléttuðu verki, en stærri háski er handritshöfundum búinn í samtölum. Þar voru þeir á hálum ís á stöku stað, einkum milli Uglu og Búa, enda þar lengst gengið í að taka samtalsparta og skeyta þá saman, t.d. í bíltúrnum og seinna í síðustu ökuferð þeirra saman og spjalli þeirra í Snorraeddu. En yfirleitt heyrist mér vel takast til í samtalshluta handrditsins.

Handrit verður að búa yfir ofureinfaldri skipan: kynningu - stígandi - risi og lyktum. Í þessu tilfelli í réttri röð. Og vegna þess að sjónhorn áhorfanda er nátengt Uglu, getur það varla breyst. Þeir svindla örlítið á því i fyrsta  skoti, en halda sig eftir það við Uglu sem vitundarmiðju kvikmyndarinnar: hún er alltaf nærri,ef ekki á tjaldinu. Þróun hennar verður því að vera skýr í handritii, en er það ekki. Val Uglu er það sem mestu skiptir í sögunni og í sinu handriti láta þeir Óðinsmenn hana gefa sig á vald Búa á sama tíma og landið er selt. Ágæt hugmynd, uppgjöfin blasir við okkur á tveimur sviðum þegar hún kemur í bæinn og sefur hjá Búa. En hvað verður? Hetjan okkar vaknar í faðmi Búa "gagntekin djúpum leiða" og gengur út. "þannig birtist upphafstemað aftur í endi tónverks, nema í annarri tóntegund, ólíkum takti - við óskyldar akkorður - og öfugt að innihaldi;" ung stúlka í framandi borg, alein með töskuna síns. Hún hefur valið. Þar er ris hæst, þá er eftirleikurinn auðveldur, nema Halldór hefur vitaskuld lítið ris í lok sögunnar, sem missir sín alveg í handritinu.

Megingalli við kvikmyndina um Atómstöðina þykir mér jöfn og samfelld stígandi. Þar er ekki reynt að nota hraða og hægð sem áhrifsmiðla til að skapa andstæður, samstæður, hliðstæður. Myndatakaan er svipuð frá senu til senu, ágætlega lýst, stundum of falleg, en meiru skiptir að myndsýnin er ekki brotin niður þar sem við á; þegar að stilltum huga Uglu stefnir eitthvað nýtt, uggvænlegt, svo hún verður að bregðast hratt við. Eða þegar hún í hægu andrúmslofti íhugar nýja veröld. Besta dæmið um ónotað tækifæri til að stilla þessum tveim ólíku kenndum saman er senan við hafnarbakkann; Ugla horfir dreymin eftir skipinu sigla í sólarlagið, snýr við og heyrir háreysti, Kleó liggur í götunni. Hér snöggbreytir um andrúmsloft án þess að því sé fylgt eftir í myndatökunni.

Þá gætir þess líka að mikilsverðar sendur glutruðust niður vegna sjónhorns. Dæmi má taka af heimsókn Gunnars í Dalinn (sem er reyndar í sögunni meistaralega sviðsett, tilbúið skothandrit); hann kemur í gættina, þau heilsast vandræðalega, ganga svo að vöggunni og tala um barnið. Þau [eru] í sirka þriggja metra fjarlægð, hálfsnúa bökum í okkkur. Hún talar um ilm af börnum, hann talar um hlandlykt, hún segir hann svín. Við sjáum alrei beint framan í þau. Engin viðbrögð, ekki barnið, ekki hann, ekki hana. Dramatiskt augnablik gert að flatneskju. Líkt var með samtal Gullhrútsins við Uglu - "Ég er beðinn að vera kjur".

Á hinn bóginn tekst prýðisvel með t.d. atriðiin, við matarborðið, þó ég hefði kosið hraðari útfærslu með samræmingu hljóðs og myndklippingar. Kristall, postulin, silfur, kjöt, [velsnyrtar] hendur og skartgripir eru svo augljóst myndefni við ræður frú Árland - hvers vegna ekki að nota það? En þá kemur líka leikur á móti - kannski við skoðum hann næst!

Það hlýtur að hafa verið meiriháttar höfuðverkur að finna fólk í hlutverkin, þar stíga þeir margsinnis ofaná persónulega sýn lesenda og geta aldrei gert öllum til geðs. Minn Organisti er allt annar maður en Árni Tryggva, en samt gekk það feikivel. En þessi þrjú skipta mestu; Búi - Gunnar Eyjólfsson, Árni og Tinna Gunnlaugsdóttir sem Ugla. Gunnar leikur Búa Árland býsna vel, hann leggur týpupna upp á sinn hátt, afar brosmildan og sjarmerandi mann, gerir minna úr þeim takmarkalausa lífsleiða sem þessi sál býr við. Gunnar er líka fylginn sér í týpunni sem skýrist hægt í atburððarásinni og lýsir sér vel í svip hans á lokafundi þeirra Uglu. Tinna á erfiðara í hlutverki hennar; ráða fordómar lesandans einhverju um það? Getur verið, en með þeirri hlutverkaskipan er brotið algerlega gegn lýsingu sögupersónunnar og ég óttast að þar hafi höfundar myndarinnar látið undan vafasömu sjónarmiði:  þeir hafi einfaldlega ekki þorað að búa til mynd með Uglu sögunnar - stórvaxinni stúlku. Tinna er þannig leikstýrt ofaní kaupið, að hún er næsta svipbrigðalaus allan tímann, hefur á sér kaldhamrað yfirbragð sem hefði betur sómt sér á unglingnum sem Sigrún Eldda lék - Guðnýju litlu Árland. Þessi mistök verða ekki skrifuð á reikning Tinnu, hún lagði augsýnilega margt til hlutverksins sumt ágætt. En forráðamenn Óðins gerðu í þessu sín og alvarlegustu mistök. Þegar svo er komið að engar andstæður eru milli Uglu og mæðgnanna í húsi Búa Árland, þá er Óðinn orðinn glámskyggn. Þær mæðgur þóttu mér báðar nokkuð góðar, sakleysi stúlkunnar var máski ekki nóg málað fyrir boðið, enda sást hún varla, þó henni brygðði þrisvar fyrir. Bræðurnir pössuðuð þokkalega í sínar rullur, Margrét Helga var frábær matreiðslukona. Yfirleitt var leikur í myndinni ágætur, leikurum gekk furðuvel að koma setningum Halldórs eðlilega frá sér og flestir voru þeir lausir við stífni. Leikarafélagið getur bara verið ánægt með sínn hlut í þessu verkefni.

Í Atómstöðinni er vandað til hljóðrásar, áhrifshljóð mörg og skýr, tónlist Karls J. Sighvatssonar blæbrigðarík og smekkleg, aðeins einu sinni var hún særandi. Í fyrst skoti af Uglu í sveitinni komu mynd og hljóð saman á afar ósmekklegan máta; Tinna ríður berbakt upp slakka mót okkur með hátingarlega tónlist undir og fjöll í bak; hvort un sig smekklítið í sjálfu sér en samankomið var það skerandi. Einkenni góðrar kvikmyndatónlistar er að gefa tón, styðja myndefnið, í rauninni þannig að enginn taki eftir henni. Karl má vera lukkulegur með sinn hlut og þeir Óðinsmenn með hann.

Hljóðupptakan er einungis veik í samtölunum. Ég held að það sé orðið nauðsynlegt að taka tal upp sérstaklega og skeyta því við myndina á eftir. Nema við eignumst tæki, aðstöðu og þjálfað fólk til að ná saman umhverfishljóðum, áhrifshljóðum og tali í hljóðblöndun, og þá tali sem er tekið upp beint."

Þeir Óðinsmenn voru lánsamir að fá Sigurjón Jóhannsson til starfa, hann er margreyndur maður í þessum efnum og mótar í flestu rétta stefnu, helst að hýbýli Fals, Gunnars og Organistans væru ofbúin.  Ég hirði ekki um að finna að smágöllum í leikmyndinnik en það er erfitt að ná öllum smáhlutum réttum sem skapa heildina.

Búningarnir voru líka réttir í flestum aðalatriðum. Ugla var helsttil ríkmannlega búin af stelpu úr sveit, sem hægt er að kaupa með nýrri kápu, eins og Búi reynir í sögunni. Þessi Ugla á þær tvær, tvö pils, franskt sjal af fínustu gerð og nokkur pör af skóm. Heldur hefur Una Collins verið úti að aka í fatamálu ungra kvenna eftir stríð, ætti þó að þekkja það frá Bretlandi.

Hárgreiðslur voru tipptopp hjá Guðrúnu Þorvarðar.

Óðinn hefur semsagt framleitt mynd sem stendur vel fyrir sínu - hún er ekki gallalaus - og dæmd til að vekja deilur, ekki bara um pólitíaskan boðskap, heldur vona ég um listræn tök. Þegar okkur gefst tækifæri til að skoða hlið við hlið skáldsögu sem Atómstöð Halldórs og kvikmynd byggða á henni, þá má ekki glata því í sjálfbirgiingslegu tali um ágæti okkar manna í filmubransanaum, heldur nota  það til að vekja með áhorfendum umræðu um stefnur og leiðir til að koma efni sem Atómstöðinni á filmu. Til þess þurfa menn að vera lesnir í sögunni og verða líka að sjá myndina. Það getur síðan vonandi leitt til þess að við getum - öll - rætt stillilega þann boðskap sem kvikmyndin flytur úr þessari mögnuðu skáldsögu sem ætti að vera öllum kunn.

(Páll Baldvin Baldvinsson)